Suscito
Imagination is more important than knowledge
28.7.07
Ferðasöguframhald
Mánudagur 16. júlí

Erum vaktir fyrir allar aldir (um sex leytið) sem var mjög hressandi, sérstaklega þar sem rútan hafði komið með okkur á dormið kl. 00:00 daginn áður og ég og Gunni farnir að sofa um eitt leytið. Tilefni þessarar vakningar var ekki af verri endanum þar sem liðinu var öllu skellt upp í rútu (sem ég hef fengið nóg af til lífstíðar) og ekið að ekta írönsku baðhúsi sem ilmaði af reykelsi og myrru (sem ég held að ég sé með ofnæmi fyrir). Fóturinn á mér var hins vegar ekki jafn sáttur og ég við reykelsisilminn og hótaði að sprengja nokkrar blöðrur á sér ef ég héldi áfram þessum eilífu gönguferðum. Ég ákvað hins vegar að hunsa hann og geng nú, sem betur fer, heill til skógar.

Núna sit ég í rútunni og lítill íranskur krakki lítur í dagbókina mína og reynir að lesa það sem ég skrifa á íslensku á meðan hann bryður hneturnar sínar.

Við ökum loks að mjög fallegum garði, verðum fyrir árás drekaflugna (sem ég kemst síðan að að eru ekki hættulegar). Batteríið í myndavélinni minni var búið en allt fólk með eðlilegan smekk fyrir íranskri garðlist ætti að hringja í Gunnar Atla og fá myndir hjá honum. Eftir heimsóknina í garðinn tók við annað sem var ekki alveg jafn náttúrulegt. Við fórum á stofnfrumurannsóknarstöð. Myndatökumennirnir voru náttúrlega alveg límdir við okkur og tóku mig meira að segja upp þegar ég klæddi mig í blátt plast yfir skóna mína. Þá reyndi ég í örvæntingu að komast fremst í hópinn til að losna við múgæsing fjölmiðlanna. Þá þurfti ég endilega að lenda á konu sem var að tala um stofnfrumur við áhugasama nemendur. Þegar ég kom inn í samræðurnar spurði hún á góðri ensku með írönsku hreim: „Does anyone know what a stem cell is?“ Mér til mikillar furðu neita allir í hópnum, þá bendir hún á mig og segir „Explain!“ Ég var þá tekinn upp og látinn útskýra fyrir hópnum allt um stofnfrumur á meðan rannsóknarkonan reyndi að fylla í eyðurnar, frekar spes. Eftir að hafa verið teknir í gegnum alla stofnunina stóð til að sýna okkur nýfæddu klónuðu kindina þeirra, Royanne sem fæddist á komudegi okkar til Íran, en því gafst ekki tími til þess :(

Föstudagur 20. júlí

Ferðin hefur bara orðið betri og betri, ég hef nú kynnst nokkrum Írönum, Króötum, Norðmönnum, Malasíubúum og gaur frá Georgíu. Í gær var íþróttadagur og ég reif upp tognunina mína frá því fyrir ferðina. Þetta gerðist í leik okkar gegn Búlgaríu en ég var í marki þegar einn leikmaður þeirra steig á fótinn á mér og beyglaði hann niður. Við unnum hins vegar í vítaspyrnukeppni 3-2. Fyrir leikinn hafði ég keypt mér „alvöru“ íranska íþróttaskó og það var svo mikil plastlykt af þeim að ég fékk blóðnasir um nóttina þegar ég hafði þá í herberginu. Eftir tognunina var ég tekinn af vellinum og læknir kom og kíkti á löppina. Þá var gamla tognunin í blóma og fóturinn var alveg stokkbólginn og lítil bólga byrjuð að myndast út úr gömlu. Læknirinn var ekki gleggri en það að hann hélt að ég væri alvarlega fótbrotinn og þyrfti að verða sendur á spítala hið snarasta. Ég harðneitaði og sagði að ég vissi alveg að ég væri bara tognaður. Eftir u.þ.b. korters rifrildi við lækninn náði ég að fá hann á mitt band, sérstaklega þar sem ég nennti ekki að hanga á spítala allan daginn. Þá ákváðu þau að gera allt sem í þeirra valdi stæði til að láta mér líða vel og komu með kaldan mangódrykk í dós (sem var ekkert kaldur) og vöfðu um ökklann þar sem þau voru ekki með neitt kalt. Eftir stutta stund kom svo ung kona vafin í svartar reifar og reddaði málunum með deifikreminu sínu.

Ég vaknaði stuttu seinna við suð í moskítóflugum við andlitið á mér, það var komið kvöld og lokahátíð íþróttadagsins var að hefjast. Við vildum ekki missa af þessu frábæra tækifæri, sérstaklega eftir að hafa orðið vitni að opnunarhátíðinni. Við urðum ekki fyrir vonbrigðum, kynnirinn var jafn lélegur og áður, kona vafin í svartar reifar með 900 orða orðaforða í ensku. Maður verður bara að sjá til að trúa...

Glöggir lesendur gætu hafa tekið eftir að nokkra daga vantar inn í ferðasöguna (og nokkrir eru eftir) en í þessum dögum sem ég hef sleppt hingað til, eins og verklegu keppninni, ferð í nokkrar moskur, kaþólska kirkju, söfn og fleira lenti ég í vandræðalegasta atviki ferðarinnar sem ég ætla að birta hér á netinu, uncut version.

Ég: *Sit á rúminu og ber á mig sólarvörn, kannsi aðeins of mikið þar sem það slettist smá í lakið en ég læt það bara í friði, pakka sólarvörninni niður og fer að lesa*

„10 mínútur“

Hurðin herberginu opnast, hreingerningarliðið kemur inn, 7 konur og einn karl. Karlinn byrjar að moppa sturtuna en ein kvennanna hunsaði mig gjörsamlega, gekk beint að lakinu, tók það upp og byrjaði að þefa af því. Þá tók hún eftir sólarvörninni og á svipnum hennar að dæma var ég fullviss um að hún hélt ekki að þetta væri sólarvörn. Upp úr þessu hófust hlátrasköll og píkuskrækir á persnesku sem ég gat engan vegin skilið. Núna skildu þær ekki enskuna mína lengur og ég reyndi að útskýra hvað þetta væri en þær voru bara með athyglina við lakið mitt. Ég sagði þá bara: „Lock the doors when you're done“ og labbaði út þar sem ég gat ekki þolað vistina í þessu herbergi lengur.

Þegar ég kom aftur var svo ekkert lak á rúminu mínu :(
25.7.07
Nýja vinnan og ferðasöguframhald
Eins og titillinn gefur til kynna er ég kominn með nýja vinnu að Tene. Vinnustaðurinn samanstendur af illgresi þar sem eitt og eitt smáblóm fær að rísa inn á milli. Já - þú giskaðir rétt, ég er byrjaður í bæjarvinnunni! Vinnan er nú ekki það slæm, núna er ég sem sagt gaurinn sem málar gulu brotnu línurnar upp við kanta sem merkir að bannað sé að leggja þar. Ef þið búið innan Reykjavíkursvæðisins og einhver er alltaf að leggja fyrir innkeyrsluna ykkar megiði endilega bjalla í mig og ég kem og redda málunum. Það gæti reyndar dregist smá á langinn þar sem mottóið á vinnustaðnum er: „Ekki gera e-ð í dag sem þú getur látið aðra gera fyrir þig á morgun“ en flestir sem þekkja mig vita að ég er ekki þannig. En eins og áður kom fram má finna allmörg illgresi á þessum stað eins og þetta samtals gefur t.d. til kynna:

Ég: *Hnerr*
Starfsm.: „Guð hjálpi þér!“
Ég: *Hnerr*
Starfsm.: „Hvað er eiginlega að þér?“
Ég: „Ég er með grasofnæmi.“
Starfsm.: „Þýðir það að þú megir ekki reykja gras?“
Ég: *Slæ hann í hausinn*

...og hann meinaði þetta.

Dagur 3 í Íran
Við erum vaktir klukkan 06:00 við það að team guide-inn okkar, Payman, ræðst á hurðina okkar. Þar sem ég hafði aðeins fengið 5 tíma svefn var ég ekki mjög sáttur en ég iðaði allur í skinninu vegna þess að skriflega keppnin átti að hefjast innan tveggja tíma svo ég lét mig fá það að drattast á lappir. Við skelltum okkur í morgunmatinn þar sem ég fékk mér morgunkorn, þegar ég byrjaði síðan á því komst ég að því mér til mikillar undrunar að mjólkin var heit, ekki volg heldur sjóðheit. Það kom mér svo á óvart að þetta bragðaðist ekkert illa.

Eftir það var okkur smalað í keppnina sem mér gekk svona semi í. Dæmi um efni sem spurt var um voru þéttar, víddargreining, Hawking geislun og tvístirni. Eftir keppnina skoðuðum við svo aðaltorgið í Isfahan sem hefur titilinn næst stærsta torg í heimi. Það er víst svo stórt að hægt væri að stafla 10 milljón manns inn í það. Fóturinn minn (sem var orðinn fjólublár og svartur á því tímabili) var ekki svakalega ánægður yfir þessum gönguferðum en lét sig hafa það að ganga yfir torgið því leiðsögumaðurinn okkar, Amir, var einum of metnaðarfullur. Dæmi um metnað hans til að sýna okkur menningargersemi Íran var t.d. sú að núna veit ég að lítill þríhyrningur í horninu á hverri mosku sýnir stöðu sólar og gefur til kynna hvenær skal biðja til Allah. Ég er svo sáttur yfir því að vita þetta.

Eftir að hafa gengið þvers og kruss yfir torgið fengum við sérstakan íranskan ís með grænmetisbragði - ekki kúl. Skoðunarferðin tók loks enda og við snæddum kvöldverð í einu fínasta hóteli Isfahan og var því öllu sjónvarpað beint í írönsku sjónvarpi. Þar komust drengirnir loksins í alvöru Coca Cola og byrgðu sig upp af því til næstu daga.
23.7.07
Dagur 1
Langaði bara að láta ykkur vita að ég er kominn frá Íran eftir 10 daga ferðalag. Þið sem eruð að vonast eftir póstkorti frá mér megið alveg hætta að hlakka til því ég býst við því að kortin komi ekki fyrr en eftir 2 mánuði. Í fyrsta lagi kostaði 180 dollara að senda 18 póstkort með hraðpósti svo ég valdi frekar að borga 18 dollara og láta senda þau sjóleiðis. Í öðru lagi þurfti ég að láta team guide-inn minn sem hét „Loforð“ á persnesku fá kortin og hann á örugglega ekki eftir að póstleggja þau í náinni framtíð ef ég þekki hann rétt.

En vinklum okkur þá að ferðasögunni.

Föstudagurinn 13. júlí

Í gær lentum við í Íran eftir u.þ.b. 22 tíma ferðalag frá Íslandi. Við lendingu í Tehran voru passarnir strax teknir af okkur og okkur djögglað inn á C.I.P. svæði (Commercially important persona). Hvert sem við förum erum við teknir upp af myndatökumönnum sem var orðið svolítið þreytt á tímabili. Hins vegar var þetta C.I.P. svæði ekki af verri kanntinum, Íranirnir mokuðu ofan í okkur kökum og öðrum gómsæti svo ég gat ekki sofnað vegna niðurbrots sykur í líkamanum. Loksins láta þeir okkur fá þær yndislegu fréttir að vísað sem við fengum sé ekki gilt og að þeir þurfi að redda nýju. Þetta ferli tekur u.þ.b. 6 klukkutíma og við reynum að festa svefn í lounge-inu. Svo loksins þegar þeir hafa talað við yfirvöld og æðsta prest er okkur komið inn í einhverja skítarútu sem var örugglega án gríns heitari en bakarofn.

Okkur var síðan ekið að næsta flugvelli þar sem rúta með liðinu frá Singapore beið okkar. Liðið frá Singapore var frekar ófélagslynt en einn liðsmannanna þeirra, Sheryl, reyndi að mingla við mig. Við reyndum í sameiningu að drekka íranskt jógúrt sem ég hélt fyrst að væri mjólk. Síðar komst ég að því að Íranar búa til jógúrt með því að vatnsþynna súrmjólk og bæta síðan úti í nógu miklu saltmagni að maður kúgast við fyrsta sopa. Ég lifði þessa lífsreynslu af en ég heyrði lítið frá Sheryl það sem eftir var ferðarinnar svo ég get ekki staðfest neitt í sambandi við hana - en svona án gríns, þetta jógúrt var einn mesti viðbjóður sem ég hef látið upp í mig.

Á leiðinni til Isfahan komst ég svo að því að Íranir halda að umferðarreglur séu fyrirbæri úr annari vídd. Hámarkshraði alls staðar er 120 km/klst og stundum breytist 2 akreina vegur í akreinar fyrir 4 bíla. Línurnar á veginum eru utan sýnilegs litrófs Írana þannig að evrópubúar eru þeir einu sem geta séð þær. Einnig gildir að sá sem er frekastur, hraðastur og með háværustu bílflautuna fær að ryðjast fram úr hinum. Flestir bílar eru eldri en 20 ára enda er mjög dýrt að flytja bíla inn í landið vegna þess að Íranir framleiða sína eigin bíla (sem eru ekkert augnayndi). Einnig er ekki óalgengt að sjá fólk á skellinöðrum sem eru að brotna í sundur og þegar ég segi fólk, þá meina ég fólk, ekki manneskja. Við erum að tala um að ein skellinaðra hélt fjögurra manna fjölskyldu án neinna vandkvæða.

Þegar við komum loks á hótelið eftir u.þ.b. 34 tíma samfellt ferðalag varð ég mjög glaður þegar ég sá að klósettin samanstóðu af holu í jörðinni og slöngu til að spúla sig eftir á. Mér var svo kurteisislega bent á að það væri ein eðlileg klósett aðstaða fyrir allan ganginn. Núna vorkenni ég því sem þetta klósett hefur þurft að þola í gegnum þessa 10 daga, samt ekki af minni hálfu, heldur allri hæðinni sem var ekki vön því að kúka standandi.

*shrugs*

Meira seinna! :)
10.7.07
Krónísk hamingja
Í gær þegar ég var að stunda hina skemmtilegu iðju, knattspark ásamt Bjarna og félögum Árna við Hjallaskóla í Kópavogi (samt var Árni ekki með, frekar fyndið) tókst mér að misstíga mig frekar illa. Mér fannst það a.m.k. hljóma illa þegar ég heyrði smell frá öklanum mínum sem vildi endilega sleppa laus úr liðnum, núna er ökklinn minn sem sagt laus og liðugur ef svo má að orði komast. Eftir að hafa næstum ælt af sársauka komst ég án frekari vandræða upp á Bráðadeild Landspítalans og var mættur þar kl. 22:15. Þar tekur einhver hjúkrunarkona á móti mér, setur mig í hjólastól og einhverjar bráðabirgðaumbúðir á fótinn. Ég, svaka feginn að þær sé svona röskar, varð frekar vonsvikinn þegar þær keyrðu mig fyrir framan sjónvarpstæki og tilkynntu mér að það væri í kringum klukkutíma bið. Ok, ég get sætt mig við það, en ekki ökklinn á mér sem þráði ekkert heitara en að slíta sig út úr líkamanum á mér. Þarna var ég sem sagt píndur til að horfa á sjónvarp, eitt af 11 verkfærum satans og mér var ekki einu sinni boðin verkjatafla. Tíminn líður, móttakan fyllist af fólki með mánudagsvandræði eins og ég, gömul kona spyr mig fjórum sinnum hvort ég sé brotinn og hóstar síðan á mig og svo verður klukkan 23:15. Konurnar í móttökunni segja mér að það sé smá bið. Biðin reyndist svo ekki vera neitt smávægilega því klukkan 01:30 var ég loksins kallaður upp næstum kominn með flogaveiki við það að horfa á sjónvarp í yfir þrjá tíma. Loksins var komið að því, þau ætluðu að lækna ökklann á mér! Ég sá ljósið á enda gangsins þegar konan keyrði mig inn í nýtt herbergi, með fullt af rúmum. Hún bendir mér á rúm númer 5 - „Þú átt að vera þarna“. Ég spyr hana í örvæntingu hvort læknirinn sé ekki á leiðinni og reyni að sýna mestu kurteisi sem ég hafði upp á bjóða með ökklinn minn bölvaði hjúkrunarkonunni í sand og ösku. Þetta herbergi reyndist síðan vera önnur biðstofa, ég var kominn upp í annan riðil, ég gat ekki gefist upp núna. Skyndilega byrjaði ég að heyra hrotur allt í kringum mig, ég var sem sagt ekki sá eini sem var að bíða þarna. Læknirinn kom loksins klukkan 02:00 og potaði smá í ökklann á mér, skoðun sem tók innan við þrjár mínútur, ég þakka honum hins vegar að hafa sent mig í röntgen myndatöku til öryggis. Eftir myndatökuna var ég aftur sendur í rúmið og þurfti að bíða í hálftíma í viðbót eftir lækninum sem sat inná kaffistofunni fyrir framan mig að drekka kaffi. Hann tilkynnti mér að ég væri ökklatognaður og mætti ekki spila fótbolta í 10 vikur! Hann gæti hins vegar útvegað mér einhver hjálpartæki ef ég vildi spila eitthvað (Var svo loksins kominn í rúmið heima þegar klukkan var farin að ganga fjögur).

Ég var hins vegar sáttur þegar hann sagði mér að ég kæmist örugglega til Íran á fimmtudaginn, jess! Hlakka til að kíkja á þetta áhugaverða land, taka þátt í Ólympíuleikunum í eðlisfræði og hlusta á fyrirlestur með Stephen Hawkings svo ætla ég að biðja hann um eiginhandaráritun eftir kennsluna... :)

En ef þið eruð að safna póstkortum og vantar eitt frá Íran í safnið eða ykkur langar bara í póstkort frá mér því ég er svo skemmtilegur megiði endilega panta.

Þangað til næst!
8.7.07
Hugljómun
Var að koma úr afmælinu hennar Alexöndru með Inga Vífli alveg eldhress en ég er að fara að kenna eðlisfræði á morgun þannig að ég ákvað að vakna bara eldhress líka! Takk aftur kærlega fyrir partíið Alexandra!

En nú langar mig að spyrja ykkur kæru lesendur þessa bloggs, ef einhverjir eru, hvaða efni þið mynduð telja mig líklegan til að skrifa um í skáldsögu.

Þannig er mál með vexti að ég fékk góða hugmynd af söguþræði um daginn eftir að hafa spjallað við Loft í World Class (furðulegt hvernig hugmyndir spretta upp á ólíklegustu stöðum) hugmyndin vatt upp á sig og núna hef ég á borðinu hjá mér dágóðan lista hugmynda sem vinna má úr. Sagan sem ég hef í huga býður upp á marga stíla og fléttur en mér finnst mikilvægt að hún endurspegli sjálfan mig sem frumraun mín í skáldsagnasmíð. Ég hef ekki í hyggju að skrifa barnabók né ljóðabók, kannski seinna, en þetta efni myndi varla geta boðið upp á það. Þar að auki ætla ég ekki að skrifa um fósturlátsuppvakninga né klónun sem væri kannski meira efni í skrítlurnar hans Hugleiks Dagssonar. Ég fjárfesti einmitt í nýjustu bók hans um daginn sem hefur titilinn Ókei bæ og endurspeglar þannig afbökun íslenskunnar eins og hún leggur sig. En bókin er léleg, algjör skítur, enda skeindi ég mér með henni eftir að hafa klárað hana.

Djók, en hún er samt ekki jafn góð og fyrri bækurnar hans.

En aftur að skáldsögunni, á þetta að vera spennusaga, hryllingssaga, rómönsk ástarsaga geðklofa eða eitthvað allt annað?
3.7.07
Hitt og þetta í óreiðu


Svolítið fyndið hvað mörg sannleikskorn leynast í svona stuttmynd "Æ, ég fékk ekki iPhone og núna verð ég að sætta mig við snúrur og kasettur á meðan börnin í Afríku deyja úr hungri og alnæmi - skítt með þau, ég vil iPhone!!! ÉG MUN DREPA FYRIR IPHOOOOOOOOOOOOOONE". Annars held ég að þetta iPhone æði sé að ganga aðeins of langt. Myndavélin er ekki einu sinni með flass og það er ekki hægt að taka upp video og svo er ekki flash stuðningur fyrir Safari. Myndi taka N95 fram yfir iPhone any day (segi bara svona). ;)

---------

Var að skoða leikjagagnrýni á gamespot um daginn sem er frekar ólíkt mér en þar rakst ég á þessa skemmtilegu gagrýni. Það lítur út fyrir að þessa gagnrýni sé bara skemmtilegri en leikurinn sjálfur!

¡ɐbǝ1pɐɹq (ıpuɐuoʌ) ʇsɯnɐظs pıʌ 'ıuuıs pɐ ɐظpǝʌʞ pɐ bǝ ɐ1ʇǝɐ nu uǝ