Í gær þegar ég var að stunda hina skemmtilegu iðju, knattspark ásamt Bjarna og félögum Árna við Hjallaskóla í Kópavogi (samt var Árni ekki með, frekar fyndið) tókst mér að misstíga mig frekar illa. Mér fannst það a.m.k. hljóma illa þegar ég heyrði smell frá öklanum mínum sem vildi endilega sleppa laus úr liðnum, núna er ökklinn minn sem sagt laus og liðugur ef svo má að orði komast. Eftir að hafa næstum ælt af sársauka komst ég án frekari vandræða upp á Bráðadeild Landspítalans og var mættur þar kl. 22:15. Þar tekur einhver hjúkrunarkona á móti mér, setur mig í hjólastól og einhverjar bráðabirgðaumbúðir á fótinn. Ég, svaka feginn að þær sé svona röskar, varð frekar vonsvikinn þegar þær keyrðu mig fyrir framan sjónvarpstæki og tilkynntu mér að það væri í kringum klukkutíma bið. Ok, ég get sætt mig við það, en ekki ökklinn á mér sem þráði ekkert heitara en að slíta sig út úr líkamanum á mér. Þarna var ég sem sagt píndur til að horfa á sjónvarp, eitt af 11 verkfærum satans og mér var ekki einu sinni boðin verkjatafla. Tíminn líður, móttakan fyllist af fólki með mánudagsvandræði eins og ég, gömul kona spyr mig fjórum sinnum hvort ég sé brotinn og hóstar síðan á mig og svo verður klukkan 23:15. Konurnar í móttökunni segja mér að það sé smá bið. Biðin reyndist svo ekki vera neitt smávægilega því klukkan 01:30 var ég loksins kallaður upp næstum kominn með flogaveiki við það að horfa á sjónvarp í yfir þrjá tíma. Loksins var komið að því, þau ætluðu að lækna ökklann á mér! Ég sá ljósið á enda gangsins þegar konan keyrði mig inn í nýtt herbergi, með fullt af rúmum. Hún bendir mér á rúm númer 5 - „Þú átt að vera þarna“. Ég spyr hana í örvæntingu hvort læknirinn sé ekki á leiðinni og reyni að sýna mestu kurteisi sem ég hafði upp á bjóða með ökklinn minn bölvaði hjúkrunarkonunni í sand og ösku. Þetta herbergi reyndist síðan vera önnur biðstofa, ég var kominn upp í annan riðil, ég gat ekki gefist upp núna. Skyndilega byrjaði ég að heyra hrotur allt í kringum mig, ég var sem sagt ekki sá eini sem var að bíða þarna. Læknirinn kom loksins klukkan 02:00 og potaði smá í ökklann á mér, skoðun sem tók innan við þrjár mínútur, ég þakka honum hins vegar að hafa sent mig í röntgen myndatöku til öryggis. Eftir myndatökuna var ég aftur sendur í rúmið og þurfti að bíða í hálftíma í viðbót eftir lækninum sem sat inná kaffistofunni fyrir framan mig að drekka kaffi. Hann tilkynnti mér að ég væri ökklatognaður og mætti ekki spila fótbolta í 10 vikur! Hann gæti hins vegar útvegað mér einhver hjálpartæki ef ég vildi spila eitthvað (Var svo loksins kominn í rúmið heima þegar klukkan var farin að ganga fjögur).
Ég var hins vegar sáttur þegar hann sagði mér að ég kæmist örugglega til Íran á fimmtudaginn, jess! Hlakka til að kíkja á þetta áhugaverða land, taka þátt í Ólympíuleikunum í eðlisfræði og hlusta á fyrirlestur með Stephen Hawkings svo ætla ég að biðja hann um eiginhandaráritun eftir kennsluna... :)
En ef þið eruð að safna póstkortum og vantar eitt frá Íran í safnið eða ykkur langar bara í póstkort frá mér því ég er svo skemmtilegur megiði endilega panta.
Þangað til næst!