Suscito
Imagination is more important than knowledge
30.3.08
Leti
Hann vaknaði við heita sólargeisla sem börðust í gegnum rifurnar á gluggatjöldunum. Klukkan var bara sjö en sólin hafði strax hafið sýna daglegu göngu yfir himininn. Hann yrði að gera einhvern tíman við þessi gluggatjöld, þetta gengi ekki lengur. Kötturinn hvæsti þegar hann steig næstum því á hann við ísskápinn, það var ekkert til, ekki einu sinni brauð. Jæja, þá þurfti hann að borða kattamat í morgunmat enn einn daginn.

Hann sat í makindum við matarborðið, löngu orðinn vanur hlandstækjunni vegna kattarins, ætti hann að fara í vinnuna í dag? Hann drattaðist á lappir, nennti ekki að klæða sig í og fór út í bíl á nærbuxunum einum fata. Hann rétt komst út úr bílskúrnum þegar hann sá að bíllinn var bensínlaus, „jæja, þá nær það ekki lengra“ hugsaði hann með sér og rölti af stað inn aftur. Á leiðinni inn var hann stöðvaður af nágrannanum sem vantaði far í vinnuna og það vildi svo heppilega til að hann hafði bensín heima við (en bíllinn hans var týndur).

Þeir óku af stað en gátu ekki komist langt því göturnar voru þaktar rusli. Rusl alls staðar og bærinn lyktaði eins og versti ruslahaugur. Þeir ákváðu því að stytta sér leið í gegnum kirkjugarðinn. Hálfgrafnar grafir voru dreifðar um allt og sums staðar lágu líkkisturnar opnar og hallandi niður í grafirnar. „Hvað er að þér maður!“ öskraði nágranninn skyndilega þegar þeir keyrðu yfir enn eitt líkið, „þetta var amma mín!“.

Hann kippti sér ekkert frekar upp við þetta frekar en að hann hafði verið í sömu nærbuxunum í þrjá mánuði. Hann fann gott stæði fyrir utan tannlæknastofuna sína og drattaðist inn. Það var lítið að gera svo hann ákvað að kíkja á sýnar eigin tennur. „Bara fjórar skemmdir“ hugsaði hann með sér, „laga það seinna...“. Fyrsti sjúklingurinn mætti um tólfleytið, hann var með sársaukafulla tannpínu í þrem tönnum. Þetta var of stórt verk fyrir hann svo hann skrifaði bara út þriggja mánaða recept fyrir parkódín forte - góð og auðveld lausn.

Klukkan eitt var hann orðinn þreyttur svo hann ákvað að kíkja á nýja fyrirtækið handan götunnar. Allir voru á iði en störðu á hann þegar hann stóð þarna á miðju gólfinu í nærfötunum einum fata. Hann fór ekki einu sinni hjá sér og spurði hátt og snjallt hvernig þau nenntu að vinna? „Leyndarmál fyrirtækisins“ svöruðu allir í kór.

Hann var forvitinn en nennti ekki að eyða meiri orku í þetta fólk svo hann gekk út, gleymdi bílnum sínum og flýtti sér heim. Starfsmenn nýja fyrirtækisins hópuðust að yfirmanninninum sem opnaði læsta skápinn í horninu. Hann tók út poka af efninu og blandaði því fyrir alla, það hafði ekki sést í þrjúhundruð ár, mannkynið var orðið of háð því og þau höfðu fundið það aftur, framtíðin var þeirra.

Framtíðin var kaffið.
23.3.08
Páskar, páskar, páskar og enn og aftur páskar! (sítekning)
Já! (Upphrópun) Gleðilega páska kæru lesendur. Pistillinn mun ekki snúast um páskana að þessu sinni, heldur um e-ð sem snertir mannsálina og okkar innstu sálartetur (Breytt endurtekning). Eins og sést er ég búinn að lesa yfir mig af íslensku í þessu páska„fríi“ (klassískt háð). Mér leiðist líka frekar mikið, reyndar það mikið að stór hluti af páskafríinu hefur farið í að skapa forrit sem finnur fjölda talna undir hundrað milljónum sem eru samsettar úr tveim og aðeins tveim prímtöluþáttum. Ég er reyndar búinn að breyta forritinu nokkrum sinnum, sérstaklega þar sem fyrsta útgáfan hefði tekið yfir 3 ár í keyrslu við gróflega útreikninga. Ég reikna hins vegar með að útgáfan sem er að keyra núna verði búin að finna niðurstöðu á morgun, hvort hún verði rétt er ég hins vegar ekki alveg viss um.

Forvitnir lesendur, eða öllu heldur þeir sem voru að lesa (ég hef grunsamlega oft lent í skyndilesblindu þetta páskafríið, sérstaklega með Heimi Pálsson í huga...) eru kannski að furða sig á því hvers vegna ég vildi finna þessar tölur. Ástæðan er þessi, verkefnið kallast Project Euler og reglulega bætast við ný verkefni.

En jæja, ætli ég hafi ekki truflað ykkur íslenskulesendur nóg í bili, þið fenguð allavega að lesa smá íslensku í þetta skipti. Ég ætla að drulla mér til að lesa hana sjálfur.

P.S. þið 5 sem eigið eftir að svara spurningalista Valborgar í færslunni fyrir neðan - þið eigið eftir að gera það. Annars verður Valborg reið og læsir mig aftur niðri í kjallaranum. Ó NEI VALBORG ER AÐ KOMA ÆEJAÆ WLAA H JÁLP!!!
15.3.08
Spurningar sem ég þarf að svara og aðrir
Valborgar skrifaði færslu á bloggið sitt um spurningar sem hún vill að fimm valdar persónur úr lífi sínu svari. Ég virðist vera ein þessara útvöldu persóna svo ef til væri bíómynd um líf Valborgar væri ég líklega ein af aðalpersónunum (*cheers*). Hérna er svo listinn:

Hvernig bíl keyriru? Ég á Huyndai Getz sem ég keyri oftast en stundum fæ ég Daewoo Tacuma lánaðann hjá gamla settinu ef Gummi er að nota Getzinn (og hann notar hann mikið og ég er að borga allt of mikið fyrir bensínið!). Svo átti ég einu sinni Skoda Fabiu en hún er dáin.

Hvaða drykk drakkstu síðast? Óútrunna léttmjólk með morgunmatnum mínum.

Ertu hamingjusamur/söm núna? Er bara e-s staðar mitt á milli held ég, spái ekki mikið í því hvernig skapi ég er í.

Hver kom síðast í heimsókn til þín? Hammerinn (Stóri bróðir minn) hann er meira að segja í heimsókn núna.

Drekkuru bjór? Nei ég er hættur því og þar að auki finnst mér ekkert sérstaklega eftirsóknarvert að vera fullur. Annars er ekkert að því að drekka einn bjór, það skiptir litlu máli til eða frá.

Hafa systkini þín e-n tímann sagt að þú sért ættleidd/ur? Nei, aldrei. Held að Gumma myndi ganga illa að fá mig til að trúa því að ég væri ættleiddur en ekki hann.

Hvað ertu með í vasanum núna? Húslykla, bíllykla, síma og veski með fullt af kortum sem ég nota næstum aldrei (T.d. kort fyrir Blend Crew sem ég hef aldrei notað, bókasafnskort frá því í grunnskóla sem ég er að henda núna, kort fyrir vildarpunkta sem ég hef aldrei notað og svo ökuskírteinið sem ég hef aldrei þurft að sýna).

Hver kynnti þig fyrir kærastanum/kærustunni? Er ekki í þannig hugleiðingum þessa stundina :)

Við hvern talaðiru síðast í símann? Birkir hringdi og spurði mig um e-ð sem hann hafði týnt og með minni hjálp tókst honum að finna það.

Hvaða DVD mynd er í spilaranum þínum núna? Engin en ég horfði síðast á The Mist sem er frekar slöpp mynd miðað við væntingar mínar til Stephen King.

Hvað ertu að hlusta á akkúrat núna? Harvest með Opeth.

Hvenær áttu afmæli? Ég fagna því að ég sé að deyja úr elli þann 14. júní á hverju ári.

Hvenær keyptiru bolinn sem þú ert í núna? Fékk hann í jólagjöf frá Pétri (stóra bróður).

Mannstu hvað kennarinn þínn hét frá því þú varst í 1. bekk? Já, hún hét Ásdís, þolinmóð manneskja. Man líka að leikfimiskennarinn hét Gréta og lét okkur fara í Tarzanleik í seinasta tíma fyrir jól.

Hefur einhver gefið þér rósir? Hmm, nei held ekki :(

Kanntu vel við foreldra þína? Þau eru orðin svolítið úrelt, ég þarf að fara að uppfæra þau - annars eru þau ágætasta fólk.

Hvort líkistu meira mömmu þinni eða pabba? Ég er mjög ólíkur báðum en í útliti held ég að ég líkist pabba meira.

Notaru bílbelti? Já það hefur bjargað lífi mínu a.m.k. einu sinni.

Ertu flughræddur? Nei, fæ bara adrenalínkikk ef það er e-ð áhættusamt. E-r til í að koma í fallhlífarstökk í sumar?

Ertu með einhver tattú? Neibb, ég er samt alveg búinn að ákveða hvernig tattú ég myndi fá mér ef ég þyrfti að fá mér tattú, annars er ég ekkert hrifinn af því.

Jæja þá er þessi listi búinn og ég held að ég hafi svarað flestu af hreinskilni.

*Uppfærsla*
Ég á víst að velja 5 manns til að svara þessum spurningum líka. Mér finnst samt leiðinlegt að spamma og þröngva einhverju upp á fólk ef það nennir ekki að gera þetta en þið sem hafið blogg eða heimasíðu hafið enga afsökun. Ég hef ákveðið að velja eina ofur persónu f(x) en þar sem f(x) er samfellt fall get ég Maclaurin liðað það svo hérna eru fyrstu fimm liðirnir:

Hörður
Einar Sverrir
Einar Axel
Svanhildur (Bjóst örugglega ekki við þessu)
Halla
4.3.08
Ef tré fellur í skóginum og enginn er nálægt, heyrist þá hljóð?
Gardínurnar falla.
„Sérðu, ljósið“ hvíslar ókunn rödd í eyra mér.
Ég skima í kringum mig, það er niðamyrkur en lítil ljósglæta í horninu dansar í takt við stefið.
„Sérðu ljósið?"
Ég rétti út höndina til að finna manneskjuna sem hljómar nú fjarlægari en áður - „var þetta rödd án líkama?“ hugsa ég með mér.
Ég held áfram að þreifa fyrir mér í myrkrinu þangað til ég lem höndunum í vegg, ég hef takmarkaða stjórn á líkamanum.
Ljósglætan verður sterkari en lýsir ekki upp neitt, allt í kringum hana er kolsvart - „hvaðan kemur þetta ljós?“
Ég man að fyrir skömmu síðan var ég að taka föt úr fatabúð. Það hafði komið heimsfaraldur, ég passaði dyrnar meðan pabbi tók fötin, við vorum einir af fáum sem lifðu af.
Er ég dáinn?
Hvað gerði konan sem kom inn í búðina?
Ég man að ég valdi Adidas peysu.
Bakið á mér er ískalt og ljósið verður bjartara.
„Hvaða ljós er þetta?“
„Af hverju svarar enginn?“
Flestir sem höfðu lent í sóttkvínni voru dánir - „ég má ekki hugsa til baka, ég get ekki breytt fortíðinni“.
„Halló?“
„Þú ert ekki einn, við bíðum lausnarinnar“ heyrist frá ljósinu.
Ljósið byrjar skyndilega að tifa örar og stefið magnast.

Ohhh... þetta er vekjaraklukkan. Ég heiti þá ekki Friðrik og kem frá Moldavíu.
Þemamynd: Hvað sé ég?