Mánudagur 16. júlí
Erum vaktir fyrir allar aldir (um sex leytið) sem var mjög hressandi, sérstaklega þar sem rútan hafði komið með okkur á dormið kl. 00:00 daginn áður og ég og Gunni farnir að sofa um eitt leytið. Tilefni þessarar vakningar var ekki af verri endanum þar sem liðinu var öllu skellt upp í rútu (sem ég hef fengið nóg af til lífstíðar) og ekið að ekta írönsku baðhúsi sem ilmaði af reykelsi og myrru (sem ég held að ég sé með ofnæmi fyrir). Fóturinn á mér var hins vegar ekki jafn sáttur og ég við reykelsisilminn og hótaði að sprengja nokkrar blöðrur á sér ef ég héldi áfram þessum eilífu gönguferðum. Ég ákvað hins vegar að hunsa hann og geng nú, sem betur fer, heill til skógar.
Núna sit ég í rútunni og lítill íranskur krakki lítur í dagbókina mína og reynir að lesa það sem ég skrifa á íslensku á meðan hann bryður hneturnar sínar.
Við ökum loks að mjög fallegum garði, verðum fyrir árás drekaflugna (sem ég kemst síðan að að eru ekki hættulegar). Batteríið í myndavélinni minni var búið en allt fólk með eðlilegan smekk fyrir íranskri garðlist ætti að hringja í Gunnar Atla og fá myndir hjá honum. Eftir heimsóknina í garðinn tók við annað sem var ekki alveg jafn náttúrulegt. Við fórum á stofnfrumurannsóknarstöð. Myndatökumennirnir voru náttúrlega alveg límdir við okkur og tóku mig meira að segja upp þegar ég klæddi mig í blátt plast yfir skóna mína. Þá reyndi ég í örvæntingu að komast fremst í hópinn til að losna við múgæsing fjölmiðlanna. Þá þurfti ég endilega að lenda á konu sem var að tala um stofnfrumur við áhugasama nemendur. Þegar ég kom inn í samræðurnar spurði hún á góðri ensku með írönsku hreim: „Does anyone know what a stem cell is?“ Mér til mikillar furðu neita allir í hópnum, þá bendir hún á mig og segir „Explain!“ Ég var þá tekinn upp og látinn útskýra fyrir hópnum allt um stofnfrumur á meðan rannsóknarkonan reyndi að fylla í eyðurnar, frekar spes. Eftir að hafa verið teknir í gegnum alla stofnunina stóð til að sýna okkur nýfæddu klónuðu kindina þeirra, Royanne sem fæddist á komudegi okkar til Íran, en því gafst ekki tími til þess :(
Föstudagur 20. júlí
Ferðin hefur bara orðið betri og betri, ég hef nú kynnst nokkrum Írönum, Króötum, Norðmönnum, Malasíubúum og gaur frá Georgíu. Í gær var íþróttadagur og ég reif upp tognunina mína frá því fyrir ferðina. Þetta gerðist í leik okkar gegn Búlgaríu en ég var í marki þegar einn leikmaður þeirra steig á fótinn á mér og beyglaði hann niður. Við unnum hins vegar í vítaspyrnukeppni 3-2. Fyrir leikinn hafði ég keypt mér „alvöru“ íranska íþróttaskó og það var svo mikil plastlykt af þeim að ég fékk blóðnasir um nóttina þegar ég hafði þá í herberginu. Eftir tognunina var ég tekinn af vellinum og læknir kom og kíkti á löppina. Þá var gamla tognunin í blóma og fóturinn var alveg stokkbólginn og lítil bólga byrjuð að myndast út úr gömlu. Læknirinn var ekki gleggri en það að hann hélt að ég væri alvarlega fótbrotinn og þyrfti að verða sendur á spítala hið snarasta. Ég harðneitaði og sagði að ég vissi alveg að ég væri bara tognaður. Eftir u.þ.b. korters rifrildi við lækninn náði ég að fá hann á mitt band, sérstaklega þar sem ég nennti ekki að hanga á spítala allan daginn. Þá ákváðu þau að gera allt sem í þeirra valdi stæði til að láta mér líða vel og komu með kaldan mangódrykk í dós (sem var ekkert kaldur) og vöfðu um ökklann þar sem þau voru ekki með neitt kalt. Eftir stutta stund kom svo ung kona vafin í svartar reifar og reddaði málunum með deifikreminu sínu.
Ég vaknaði stuttu seinna við suð í moskítóflugum við andlitið á mér, það var komið kvöld og lokahátíð íþróttadagsins var að hefjast. Við vildum ekki missa af þessu frábæra tækifæri, sérstaklega eftir að hafa orðið vitni að opnunarhátíðinni. Við urðum ekki fyrir vonbrigðum, kynnirinn var jafn lélegur og áður, kona vafin í svartar reifar með 900 orða orðaforða í ensku. Maður verður bara að sjá til að trúa...
Glöggir lesendur gætu hafa tekið eftir að nokkra daga vantar inn í ferðasöguna (og nokkrir eru eftir) en í þessum dögum sem ég hef sleppt hingað til, eins og verklegu keppninni, ferð í nokkrar moskur, kaþólska kirkju, söfn og fleira lenti ég í vandræðalegasta atviki ferðarinnar sem ég ætla að birta hér á netinu, uncut version.
Ég: *Sit á rúminu og ber á mig sólarvörn, kannsi aðeins of mikið þar sem það slettist smá í lakið en ég læt það bara í friði, pakka sólarvörninni niður og fer að lesa*
„10 mínútur“
Hurðin herberginu opnast, hreingerningarliðið kemur inn, 7 konur og einn karl. Karlinn byrjar að moppa sturtuna en ein kvennanna hunsaði mig gjörsamlega, gekk beint að lakinu, tók það upp og byrjaði að þefa af því. Þá tók hún eftir sólarvörninni og á svipnum hennar að dæma var ég fullviss um að hún hélt ekki að þetta væri sólarvörn. Upp úr þessu hófust hlátrasköll og píkuskrækir á persnesku sem ég gat engan vegin skilið. Núna skildu þær ekki enskuna mína lengur og ég reyndi að útskýra hvað þetta væri en þær voru bara með athyglina við lakið mitt. Ég sagði þá bara: „Lock the doors when you're done“ og labbaði út þar sem ég gat ekki þolað vistina í þessu herbergi lengur.
Þegar ég kom aftur var svo ekkert lak á rúminu mínu :(
Bara til að geta hlegið að því seinna.