Eins og titillinn gefur til kynna er ég kominn með nýja vinnu að Tene. Vinnustaðurinn samanstendur af illgresi þar sem eitt og eitt smáblóm fær að rísa inn á milli. Já - þú giskaðir rétt, ég er byrjaður í bæjarvinnunni! Vinnan er nú ekki það slæm, núna er ég sem sagt gaurinn sem málar gulu brotnu línurnar upp við kanta sem merkir að bannað sé að leggja þar. Ef þið búið innan Reykjavíkursvæðisins og einhver er alltaf að leggja fyrir innkeyrsluna ykkar megiði endilega bjalla í mig og ég kem og redda málunum. Það gæti reyndar dregist smá á langinn þar sem mottóið á vinnustaðnum er: „Ekki gera e-ð í dag sem þú getur látið aðra gera fyrir þig á morgun“ en flestir sem þekkja mig vita að ég er ekki þannig. En eins og áður kom fram má finna allmörg illgresi á þessum stað eins og þetta samtals gefur t.d. til kynna:
Ég: *Hnerr*
Starfsm.: „Guð hjálpi þér!“
Ég: *Hnerr*
Starfsm.: „Hvað er eiginlega að þér?“
Ég: „Ég er með grasofnæmi.“
Starfsm.: „Þýðir það að þú megir ekki reykja gras?“
Ég: *Slæ hann í hausinn*
...og hann meinaði þetta.
Dagur 3 í Íran
Við erum vaktir klukkan 06:00 við það að team guide-inn okkar, Payman, ræðst á hurðina okkar. Þar sem ég hafði aðeins fengið 5 tíma svefn var ég ekki mjög sáttur en ég iðaði allur í skinninu vegna þess að skriflega keppnin átti að hefjast innan tveggja tíma svo ég lét mig fá það að drattast á lappir. Við skelltum okkur í morgunmatinn þar sem ég fékk mér morgunkorn, þegar ég byrjaði síðan á því komst ég að því mér til mikillar undrunar að mjólkin var heit, ekki volg heldur sjóðheit. Það kom mér svo á óvart að þetta bragðaðist ekkert illa.
Eftir það var okkur smalað í keppnina sem mér gekk svona semi í. Dæmi um efni sem spurt var um voru þéttar, víddargreining, Hawking geislun og tvístirni. Eftir keppnina skoðuðum við svo aðaltorgið í Isfahan sem hefur titilinn næst stærsta torg í heimi. Það er víst svo stórt að hægt væri að stafla 10 milljón manns inn í það. Fóturinn minn (sem var orðinn fjólublár og svartur á því tímabili) var ekki svakalega ánægður yfir þessum gönguferðum en lét sig hafa það að ganga yfir torgið því leiðsögumaðurinn okkar, Amir, var einum of metnaðarfullur. Dæmi um metnað hans til að sýna okkur menningargersemi Íran var t.d. sú að núna veit ég að lítill þríhyrningur í horninu á hverri mosku sýnir stöðu sólar og gefur til kynna hvenær skal biðja til Allah. Ég er svo sáttur yfir því að vita þetta.
Eftir að hafa gengið þvers og kruss yfir torgið fengum við sérstakan íranskan ís með grænmetisbragði - ekki kúl. Skoðunarferðin tók loks enda og við snæddum kvöldverð í einu fínasta hóteli Isfahan og var því öllu sjónvarpað beint í írönsku sjónvarpi. Þar komust drengirnir loksins í alvöru Coca Cola og byrgðu sig upp af því til næstu daga.