Hann vaknaði við heita sólargeisla sem börðust í gegnum rifurnar á gluggatjöldunum. Klukkan var bara sjö en sólin hafði strax hafið sýna daglegu göngu yfir himininn. Hann yrði að gera einhvern tíman við þessi gluggatjöld, þetta gengi ekki lengur. Kötturinn hvæsti þegar hann steig næstum því á hann við ísskápinn, það var ekkert til, ekki einu sinni brauð. Jæja, þá þurfti hann að borða kattamat í morgunmat enn einn daginn.
Hann sat í makindum við matarborðið, löngu orðinn vanur hlandstækjunni vegna kattarins, ætti hann að fara í vinnuna í dag? Hann drattaðist á lappir, nennti ekki að klæða sig í og fór út í bíl á nærbuxunum einum fata. Hann rétt komst út úr bílskúrnum þegar hann sá að bíllinn var bensínlaus, „jæja, þá nær það ekki lengra“ hugsaði hann með sér og rölti af stað inn aftur. Á leiðinni inn var hann stöðvaður af nágrannanum sem vantaði far í vinnuna og það vildi svo heppilega til að hann hafði bensín heima við (en bíllinn hans var týndur).
Þeir óku af stað en gátu ekki komist langt því göturnar voru þaktar rusli. Rusl alls staðar og bærinn lyktaði eins og versti ruslahaugur. Þeir ákváðu því að stytta sér leið í gegnum kirkjugarðinn. Hálfgrafnar grafir voru dreifðar um allt og sums staðar lágu líkkisturnar opnar og hallandi niður í grafirnar. „Hvað er að þér maður!“ öskraði nágranninn skyndilega þegar þeir keyrðu yfir enn eitt líkið, „þetta var amma mín!“.
Hann kippti sér ekkert frekar upp við þetta frekar en að hann hafði verið í sömu nærbuxunum í þrjá mánuði. Hann fann gott stæði fyrir utan tannlæknastofuna sína og drattaðist inn. Það var lítið að gera svo hann ákvað að kíkja á sýnar eigin tennur. „Bara fjórar skemmdir“ hugsaði hann með sér, „laga það seinna...“. Fyrsti sjúklingurinn mætti um tólfleytið, hann var með sársaukafulla tannpínu í þrem tönnum. Þetta var of stórt verk fyrir hann svo hann skrifaði bara út þriggja mánaða recept fyrir parkódín forte - góð og auðveld lausn.
Klukkan eitt var hann orðinn þreyttur svo hann ákvað að kíkja á nýja fyrirtækið handan götunnar. Allir voru á iði en störðu á hann þegar hann stóð þarna á miðju gólfinu í nærfötunum einum fata. Hann fór ekki einu sinni hjá sér og spurði hátt og snjallt hvernig þau nenntu að vinna? „Leyndarmál fyrirtækisins“ svöruðu allir í kór.
Hann var forvitinn en nennti ekki að eyða meiri orku í þetta fólk svo hann gekk út, gleymdi bílnum sínum og flýtti sér heim. Starfsmenn nýja fyrirtækisins hópuðust að yfirmanninninum sem opnaði læsta skápinn í horninu. Hann tók út poka af efninu og blandaði því fyrir alla, það hafði ekki sést í þrjúhundruð ár, mannkynið var orðið of háð því og þau höfðu fundið það aftur, framtíðin var þeirra.
Framtíðin var kaffið.
Eða ekki - langaði bara að stæla Svövu Jakobsdóttur og fáránleikann í töfraraunsæinu... Var það kannski ekki að gera sig?