Suscito
Imagination is more important than knowledge
29.11.07
Genarannsókn
Ég komst að því í gær að ég er genarannsókn - já... genarannsókn! Eftir að hafa grennslast í skrifstofunni hjá foreldrum mínum fann ég miða með talnakóða að peningaskápnum sem er í kjallaranum hjá okkur. Eftir að hafa spurt foreldra mína ótal sinnum hvað væri í þessum skáp án þess að fá svar varð ég bara að láta reyna á þessa talnarunu. Eftir að hafa snúið læsingunni í rétta legu small lásinn upp. Ég opnaði skápinn og ég átti ekki orð yfir það sem við mér blasti. Fyrir framan mig var hrúga af pappírum, skjöl um mig og bróður minn ásamt lítilli tösku sem innihélt nokkra lykla og gamalt ávísanahefti. Flest blaðanna virtust merkt fyrirtækinu DNA vision en eftir smá leit fann ég heimasíðu þeirra. Eftir að hafa lesið mig í gegnum samninginn sem þau létu foreldra mína skrifa undir og sem þau virtust hafa fengið himinháar upphæðir fyrir lagði ég loksins saman tvo og tvo. Foreldrar mínir hafa lifað tvöföldu lífi öll þessi ár, þau voru aldrei í venjulegri vinnu eins og aðrir foreldrar en voru heldur í gagnasöfnun fyrir DNA vision. Ég er ekki enn þá búinn að segja foreldrum mínum né Guðmundi að ég hafi komist að þessu. Tilfinningarnar eru náttúrlega í molum, mér líður eins og ég hafi verið notaður, eins og ég sé bara einhver vara. Á grundvelli allra siðferðisviðmiða finnst mér brotið á mér á svo marga vegu að ég á ekki yfir það orð. Eftir að hafa hringsnúist og fallið kylliflatur á jörðina rankaði ég við mér. Var þetta allt bara ímyndun? Var maðurinn sem slóg í jörðina bara ofskynjanir og skrýtna bragðið af seríósinu sem ég borðaði í morgun annað en bara bragð af gömlu seríósi?

Ég skrifa framhald þegar fleiri vísbendingar koma fram í dagsljósið.
23.11.07
The Tetris effect
Undanfarið hef ég mikið verið að stunda þá iðju að spila hinn heimsþekkta tölvuleik Tetris. Uppáhaldskubbarnir mínir eru I og T andstætt við S og Z sem eru leiðindakubbar. Reyndar hef ég spilað Tetris svo mikið að ég er byrjaður að sjá ofsjónir, þegar ég loka augunum sé ég tetromino form raðar sér upp í raðir og stundum hrekk ég upp á nóttunni því kubbarnir detta of hratt. Eftir að hafa lesið um Tetris á Wikipedia komst ég síðar að því að þessi einkenni hafa nafn, The Tetris effect. Ég ætla að halda áfram að spila Tetris þangað til mörkin milli hins raunverulega heims og Tetris renna saman, bílar breytast í Tetris form á götunum, fólk raðar sér í raðir skv. Tetris reglum og ég get bara staðið á stöðum sem ég „passa“ í.

Tetris er æði, einhver til í lan?
17.11.07
Last minute gjafir
Það er ekkert meira óþægilegt en að þurfa að kaupa gjafir á seinustu stundu. Ein af ástæðunum fyrir því að ég mætti ekki á Morfís í gær til að sjá MR "skíttapa" á móti FÁ var vegna afmælis Bjarna og Ingibjargar. Fyrir afmælið ákváðum ég og Gummi að kaupa gjafir en því miður var allt lokað! Guðmundur (sem var búinn að fá e-ð í sína stóru tá) fékk þá hina snilldargóðu hugmynd að fara í 10-11 sem var eina búðin sem var opin (við fórum samt fyrst í Lyfju og próteinduft var ekki nógu góð gjöf). Þegar í búðina var komið rétti hann mér Durex sleipiefni og nuddolíu, ásamt tveim bókum úr rauðu seríunni, Öðruvísi brúðkaup og svo annarri með mynd af slökkviliðsmanni framan án. Þarna stóð ég, í röðinni í 10-11, með sleipiefni og tvær létt erótískar bækur mér við hönd. Ég reyndi að forðast augnsamband við aðra sem stóðu í röðinni og gat ekki falið glottið sem heimtaði að sjá dagsljósið. Ég sé út undan mér að konan fyrir framan mig í röðinni horfir á mig brosa, því næst lítur hún á sleipiefnið og svo les hún titlana á bókunum, svo starði hún á mig, virkilega starði á mig í svona mínútu (tíminn líður svo hægt á svona mómentum). Aðrir í röðinni voru líka byrjaðir að fylgjast með þessum innkaupum mínum og mér leið eins og fífli. Þegar í afmælið var loks komið tók Bjarni ekkert það illa í gjöfina og stillti henni upp á náttborðið sitt, vona að það hafi bara ekki farið fyrir brjóstið á honum og Ingibjörgu ef svo er þá afsaka ég svona last minute gjöf sem eiga engan rétt á sér. Vona samt að bækurnar séu góðar ^^
8.11.07
Þegar vélmennaforriturum leiðist