Suscito
Imagination is more important than knowledge
26.5.07
Hugarástand
Mannstu fyrir langa löngu, sólin skein og máninn svaf. Sumarið var að koma, fuglasöngur ómaði í takt við goluna og sólargeislarnir dönsuðu í morgunskímunni. Hurðin opnaðist, lykillinn féll í gólfið og andlit nýrra möguleika brosti í gegnum dyragættina. Þig langaði út, sætur ilmur fyllti vit þín, í stað þess að vepjast í iðrum sængurinnar svífuru líkt og þú sért á skýi í átt að upptökum lyktarinnar. Mörg andlit birtast á vegi þínum, sum hissa, önnur glöð og sum jafnvel hlæjandi, það skiptir ekki máli - þú þarft bara að komast á leiðarenda. Lyktin verður sterkari og sterkari, þér finnst þú hafa gengið kílómetrum saman en samt hættiru ekki, það er eitthvað sem rekur þig áfram, eitthvað afl sem þú hefur ekki stjórn á, einhver hvöt sem veit hvað er rétt fyrir þig - þú gefst ekki upp. Dagurinn er að kvöldi kominn og lyktin verður sterkari með hverju skrefi. Þú ert löngu kominn yfir það stig að lyktin sé óbærileg, þér finnst þú vera að kafna, samt helduru áfram. Þessi sæti ilmur, þessi tilfinning, þessi sæluhrollur, þú vilt það en það sýnir sig ekki. Það leyfir þér bara að upplifa sig með einu skilningarviti, geturu upplifað það með fleirum?

Eftirförin er sögð betri en bráðin, ég held samt að mín bráð sé betri.
(Textinn er aðeins lúmskari en hann virðist við fyrstu sýn, tílvísanir, minni, anagröm, ég gef ykkur nú samt ekki allt upp.")