Mér finnst alltaf jafn gaman að lesa stjörnuspána í Mogganum jafnvel þó ég taki ekkert mark á henni. Sá sem semur þessar spár reynir ætíð að hafa efnið eins opið og mögulegt sé, svo hver og einn geti tengt það við atburði í sínu daglega lífi. T.d. var spáin mín í dag:
„Fólk í kringum þig þarf að láta í sér heyra (Hver?). Það er næstum því („Næstum því", alltaf vafasamt) mikilvægara að hlusta á sögu annarra en að leysa vandamál þeirra (Hvaða sögu?). Notaðu þín skýru og vakandi augu til þess að gefa öðrum gaum (Hvernig gaum?)."
Sjaldan reynir höfundur stjörnuspánnar að draga eitthvað úr hæfileikum lesendanna (Því þá myndu vinsældir stjörnuspánnar minnka) og leynast oft dularfull skilaboð inná milli. T.d. stendur í spánni hjá Bogamanninum í dag; „Nýtt samband lofar góðu...", núna byrjar maður að efast, er sá/sú sem semur spána að byrja í e-u sambandi og er að senda falin skilaboð til ástvinar? Jafnvel þó þetta sé kannski frekar djúpt í árina tekið þá hef ég sterkar heimildir fyrir svona atvikum. Dönskukennslukonan sem kenndi mér í grunnskóla sagði bekknum okkar einu sinni sögu. Þegar hún vann hjá Dagblaði sem ung stúlka hafði stjörnuspákonan tekið sér frí og hún og vinkona hennar þurftu að semja spána í hennar stað. Þá laumuðu þær inn duldum skilaboðum eins og „Bjóddu kærustunni í bíó í kvöld" og öðru vafasömu sem ber ekki að nefna hér. Síðan, án þess að nefna að þær skrifuðu stjörnuspána, spurðu þær kærasta sína mjög grunsamlega; „Búinn að lesa stjörnuspána í dag!?" Eftir þessa sögu tók ég aldrei aftur mark á stjörnuspánni (sem ég hafði reyndar varla gert áður) en las þess í stað spána í leit að merkjum eins og þessum sem getur oft reynst skondið.
Jafnvel þó ég taki ekki mark á henni má hún samt alveg rætast! (Lesið fyrstu setningu hennar aftur.)